Þörfin fyrir Lesheim

Þörfin fyrir forritið Lesheim verður ljós í skólastarfi.

Er ég starfaði við yngri barna kennslu í Hjallaskóla á árunum 1983-1985 varð ég fyrst áþreifanlega vör við hversu mikil þörf var fyrir hjálpartæki inni í almennri kennslustofu. Þá voru kennarar ekki farnir að nota tölvu í kennslustarfi. Hvað var til ráða?

Nemendurnir voru 6 ára og ég fylgdi þeim áfram upp í 7 ára bekk. Á þessum árum gerði ég mér glögga grein fyrir að fáein börn innan bekkjardeildar náðu ekki að vera samferða hópnum þrátt fyrir góða greind og að vera yndisleg börn.

Þau höfðu þörf fyrir endurtekna innlögn í ró og næði. Þess vegna útbjó ég hljóðgreiningarverkefni til þess að koma til móts við þau. Börnin mynduðu lítinn hóp stutta stund á degi hverjum og æfðu stafhljóðastigið, hlustuðu meðal annars á snældu sem ég hafði lesið inn á.

Námsefni fyrst í stað á snældu. Notast var við eitt segulband. Hvert barn var með heyrnarsett þannig að þau trufluðu ekki aðra innan bekksins. Þetta gerði mér kleift að vanrækja þau ekki en sinna jafnframt öðrum börnum í bekknum.

Í stórum bekkjum getur verið talsvert mál fyrir kennara að sinna nemendum með ólíkar námsþarfir og þarf skipulagningin að vera bæði góð og skilvirk.

Sveigjanleg vinnubrögð voru höfð að leiðarljósi í Hjallaskóla sem gerðu mér kleift að fylgja þessu eftir á markvissan hátt. Smám saman sá ég árangur eftir talsverðar endurtekningar, samhliða annarri verkefnavinnu og auðvitað einnig með persónulegum tengslum við börnin.

Börnin misstu ekki áhugann og fóru smám saman að stauta.

Það að vinna í gleði er grundvöllurinn sem árangurinn byggir á. Börnin þurfa verkefni sem þau ráða við. Varast ber að þau fái það á tilfinninguna að þau séu haldin einhverju sem erfitt er að takast á við. 

Hvað hefði orðið ef börnin hefðu ekki fengið endurtekna hljóðinnlögn?

Vinnusvæði skipulagði ég í lestrarsérdeild sem var til húsa í Fellaskóla á árunum 1985-1989 og var eitt svæðanna kallað hlustun. Lestrarsérdeild var ætluð nemendum á aldrinum 9-12 ára sem ekki höfðu náð að tileinka sér grunnfærni lestrar- og ritunar. Ég nýtti mér fyrri reynslu og betrumbætti hljóðgreiningarvinnuna og endurinnlögn hljóða. Námsefnið var einfaldað en áfram notast við segulband og snældur. Tilgangurinn var að nemendur gætu á sem fjölbreytilegastan hátt unnið sigra á hverjum degi.

Sérúrræði yngri barna. Við þróun sérúrræðis yngri barna Digranesskóla á árunum 1991-1994 voru vinnubrögðin endurskoðuð á ný. Nokkur börn áttu í erfiðleikum með að muna hljóðin og yfirfæra þau á táknin, bókstafina. Þau þurftu góðan tíma til þess að ná tökum á lestrinum.

Þar eins og fyrr endurtók ég vinnubrögðin, endurmat þau margsinnis og sannfærðist um að endurtekning, skilningur á heildarvinnu og góð persónuleg tengsl skipta sköpum, í raun forsenda þess að börnin næðu þeirri einbeitingu sem þarf til þess að tileinka sér lestraraðferð af öryggi.

Reynsla mín með fullorðnu fólki sem stríddi við alvarlega lestrarörðugleika styrkti ákvörðun mína um vinnutilhögun og námsnálgun. Hver og einn hafði sína sögu að segja. Sumir höfðu einmitt staðnað á byrjunarstigi lestrar og þess vegna aldrei náð sér almennilega á strik. Fólk hafði jafnvel kennt sjálfu sér um alla skólagönguna að hafa ekki náð færni í lestri og skrift. Viðkvæðið oft á tíðum: „Ég hélt ég væri tossi.“

Það hlýtur að vera mikilvægt hverjum og einum að geta lært á eigin hraða, staðið á eigin fótum og markað framtíð sína.