Samverkandi þættir

Lestrarnám reynir á marga þætti, skilningsþátturinn mikilvægastur. Samblöndun af færni sjónar, heyrnar, tungu, hreyfi og ályktunar gerir nemanda kleift að læra að lesa og skrifa. Hér er oftast um að ræða þætti sem snerta túlkun eftir að viðkomandi hefur séð/numið bókstafinn, samstöfuna, orðið eða setninguna. Erfitt er að segja nákvæmlega til um það hvers vegna sumir þurfa meiri æfingu en aðrir og það er heldur ekki endilega ákjósanlegt. Aðalatriðið er að nemandi eigi þess kost að æfa verkefni sem henta vel og hann tilbúinn að takast á við. Oftast er um fleiri en eina orsök að ræða þegar hægt gengur. Þættir sem áhrif hafa á framgang í námi gætu verið beint tengdir skólanum og kennslunni. Tíð kennaraskipti, sérstaklega fyrstu skólaárin framkalla óvissu og/eða óöryggi sem gæti dregið úr trausti nemandans í garð skóla. Líkamlegar hindranir eða veikindi nemanda valda eðlilega töf. Góð og jákvæð byrjun ryður braut inn í bjarta námsframtíð.

Flutningur milli skóla innanlands eða á milli landa hefur áhrif á félagstengsl hvort heldur sem þau verða jákvæð eða neikvæð. Nemandi skynjar ef til vill síður heildarsamhengi lestrarnáms ef skortir eftirfylgni og stuðning. Kennslufræðileg mistök geta átt sér margar skýringar en eru afdrifaríkar fyrir framvindu nemanda í skóla. Kennslan þarf að vera heildstæð og sinnt af alúð og skilningi.

Seinn almennur þroski nemanda leiðir til þess að hann þarf lengri tíma til að taka á móti lestrarnámi. Ótímabærar kröfur gætu dregið úr sjálfstrausti.

Heimilið er beinn áhrifaþáttur bæði hvað varðar félagslegar aðstæður og tilfinningaþátt. Nemandi gæti til dæmis verið þrúgaður af of miklum kröfum frá foreldrum og/eða vanræktur án stuðnings. Ákjósanlegast er að nemandi fái hvatningu og stuðning heima fyrir en erfiðleikar þar innandyra gætu leitt til áhugaleysis sem fram kemur í námserfiðleikum. Lítið hvetjandi málumhverfi heima gæti hugsanlega styrkt óvirkni nemanda í námi.

Heimili og skóli þurfa helst að vera samstíga til þess að nemandi fái skýr og uppörvandi skilaboð. Misvísandi skilaboð framkalla óöryggi og togstreitu. Jákvæður stuðningur við nám lyftir grettistaki.

Lestrarerfiðleikar birtast á marga vegu. Þeir eru sjaldan eitt einstakt fyrirbæri heldur sambland margra þátta. Sem dæmi um það hvað fram kemur við lestur get ég nefnt:
Vandkvæði með að greina mun á sérhljóðum þar sem hljóðmyndunin er svipuð og einnig leiðir líkt útlit breiðra og grannra sérhljóða til þess að þeim er ruglað saman.
Vandkvæði með að yfirfæra heyrt hljóð á bókstaf, það er samband hljóðheyrnar og aðgerðarinnar að endurþekkja hljóðið sem bókstafstákn.
Vandkvæði með að greina á milli líkra samhljóða: v-f-þ-ð,  g-k,  d-t,  n-l,  b-p.
Vandkvæði í skrift sem leiðir til þess að fólk snýr við útlitslíkum stöfum.
Stundum reynist erfitt að renna átakalaust frá einu hljóði á annað vegna málerfiðleika. Stundum reynist erfitt að muna lesinn texta og endursegja hann. Það gæti tengst einbeitingu og minni en einnig kvíða og/eða streitu. Lestur getur verið það streituvaldandi að erfitt reynist að ná fram þeirri einbeitingu sem þarf. Áreynsla við að lesa getur verið það mikil, að þegar kemur að lok setningar er viðkomandi búinn að gleyma því sem hann las í byrjun.

Tilfinningalegir erfiðleikar (sem og álag, streita og þreyta) hafa áhrif á einbeitingu og þá einnig á lestur. Hugsanlega gæti þá skrift og stafsetning bætt upp sem sterkari þættir lestrarnáms.

Fólk hefur kannski aldrei lært aðferð við lestur og skrift sem það getur treyst á og er þar af leiðandi uppfullt af óöryggi og jafnvel kvíða. Hugsanlega er viðkomandi alltaf að lesa of þungan lestrartexta miðað við lestrarkunnáttu. Mikilvægt er að kenna nemendum að nota fjölbreyttar leiðir við námið og slökun til þess að geta sem best tekið á móti námi. Innri sátt hlýtur alltaf að vera ein aðalforsenda framfara í námi.

Erfiðleikarnir koma misjafnlega fram hjá ólíkum einstaklingum. Nánar má lesa um á vefsíðum Jónasar G Halldórssonar. Í nútíma þjóðfélagi er það meiriháttar mál að ná ekki tökum á lestrarnámi og getur það háð einstaklingum ævilangt. Mest reynir á kennarann, hvað varðar kennslufræðilega nálgun, þegar einstaklingar eiga í erfiðleikum með að muna hljóðin og yfirfæra þau á táknin, bókstafina. Hér virðist um vandkvæði að ræða sem tengist hljóðheyrn og minni. Ekki má vanrækja lestrargrunninn, hann er undirstaðan sem byggt er á. Lestrartæknin nýtist ekki sem skyldi fyrr en viðkomandi hefur náð valdi á hljóðunum, bókstöfunum og tengingunum þeirra innbyrðis í orð.

Erfiðleikar með hljóðheyrn og yfirfærslu virðist vera sammerkt þeim sem þurfa mest á endurtekningu að halda. Hér reynir ávallt mjög á einstaklinginn í náminu. Afar mikilvægt er þess vegna að hann öðlist skilning á eigin stöðu, upplifi sigra á degi hverjum og fái jákvæðan stuðning.