Námsgögn

Lært og lesið 1 og 2 er námsefni fyrir þá sem vilja bæta lestrar- og ritunarstöðu sína

Lært og lesið 1 er unnið út frá viðmiðunarröð kenndra stafhljóða sem hafa einfalda tengingu. Hér er aðal markmiðið að nemandinn öðlist hljóðöryggi og læri lestrartæknina. Þekktar orðmyndir eru kynntar jafnóðum.

Skriftarnámið er ætíð samhliða lestrarnáminu. Heildarsamhengi fær nemandinn þegar lestur og ritun eru kennd samhliða og er það ein aðalforsenda þess að nemandinn öðlist öryggi í náminu.

Lært og lesið 2 er unnið út frá viðmiðunarröð lestrarferlis með flóknari hljóðasambönd. Megináhersla er á samhljóðasambönd, einfalda/tvöfalda samhljóða svo og samsett orð og algengar endingar. Unnið er með samfellt mál úr kenndum hljóðum, hljóðgreiningu, rím og ritun.

Áhersla er lögð á að nemandinn geri sér glögga grein fyrir lestrartækninni, uppbyggingu málsins og því hvað hljóðöryggi er mikilvægt fyrir lestur og stafsetningu.


Stafahúsið er ávallt haft við höndina í lestrar- og ritunarnámi. Nemandi fær skilning á sérkennum hvers stafs út frá talstöðu og hljóðfræði. Hann leitar í það að vild, líkt og þegar nemandi leitar í sýnilega margföldunartöflu ef hann kann hana ekki utan bókar.

Kennari bendir einnig í stafahúsið þegar á þarf að halda í kennslustund til útskýringar. Nemandinn er mun sjálfstæðari þegar hann kann að nýta sér stafahúsið, sækir það stafhljóð sem hann þarf á að halda, í virku starfi, í stað þess að bíða eftir eða biðja um hjálp.

Stafahúsið er öflugt hjálpartæki, fyrir alla aldurshópa, þegar unnið er að framförum lestrar og framburðar. Rannveig Löve þýddi stafahúsið og kynnti á Íslandi 1987. Gunnlaugur SE Briem hannaði stafahús með Ítalíuskrift 2003.


Uppflettihefti, með forritinu Lesheimi, hefur sama tilgang og stafahúsið en útfærslan er önnur. Nemandinn tengir stafhljóð við mynd. Fyrsti bókstafur myndar minnir á stafhljóðið. Sömu myndir eru í heftinu og forritinu Lesheimur.

Kennaramöppur innihalda skýringa- og æfingablöð fyrir lestrar- og skriftarkennslu.

Lestrartextar eru í möppum, stafsetninga- og málfræðireglur og einnig aukaæfingar í stafsetningu. Námsefni í skrift fyrir íslenskukennslu nýtist einnig fólki af erlendum uppruna, sem ekki hefur áður lært eða kynnst latnesku letri. Myndamat með Lært og lesið 1, er notað sem símat í kennslu. Myndasafnið í möppunni er notað:

  • Til þess að auðvelda nemanda orðskilning.
  • Sem stöðumat í lok hvers áfanga Lært og lesið 1.

Námsgögnin í heild gefa kost á vali að aðeins þeir þættir séu kenndir sem koma að gagni miðað við námsþarfir nemenda.

Þau geta hjálpað til lengri tíma og fer það eftir því hvaða þættir eru valdir í kennslu og námshraða nemandans að sjálfsögðu, hve langt tímabilið spannar og hvenær námsgögnin eru notuð.


Lesið og skrifað er mynddiskur (útg. 2012). Fram kemur meðal annars yfirlit á kennsluefninu og aðferð byggð á Ítalíuskrift G SE Briem.