Lestur

Lestur, skrift og stafsetning

Heildstæð lestrar- og ritunaraðferð nýtist hvort heldur í sveigjanlegri hópkennslu eða sérhæfðri einkakennslu. Hljóðaðferð sem byggir fyrst á að þekkja nöfn stafanna og hljóð þeirra og lestraraðferð sem byggir fyrst á talmáli eða texta, eru ekki andstæðar aðferðir heldur sín hvor hliðin á sama peningi. Endanlega er það alltaf hljóðöryggi og skilningur nemandans á innihaldi texta og uppbyggingu hans og ritunar sem ræður úrslitum um árangur. Aðferðin hefur verið þróuð og aðlöguð íslenska málkerfinu.
Aðeins þeir þættir eru kenndir sem koma að gagni miðað við námsþarfir nemenda.


Lestur
Lestraraðferð er gagnsæ. Heildarmynd skýr. Lestrargrunnur traustur. Með hjálp forritsins Lesheims fæst heildarsýn hljóðinnlagnar. Námsgögn styðja heildarnám. Samhengið ljóst frá byrjun. Ofangreind áhersluatriði opna fyrir skilning sem auðveldar flestum að takast á við lestranám.


Skrift
Hreyfingakerfið er æft af alúð. Skriftarkennslan tekur mið af formi bókstafanna. Talað er um skriftina. Hún er höfð í samhengi við lestrarkunnáttu og borin saman við prentletur. Mismunandi stafagerðir eru kynntar og kenndar ef óskað er en Ítalíuskrift er fljótlærðust og fyrir alla. Sjá einnig heimasíðu Gunnlaugs SE Briem


Stafsetning
Orð eða setningar eru skrifaðar eftir upplestri í samræmi við lestrar- og skriftarkunnáttu. Áhersla lögð á skilning stafsetningareglna og þær kynntar ein af annarri og útskýrðar þegar rekist er á hindranir. Frjáls, skapandi skrif frá byrjun lestrar- og skriftarnáms. Stuðningur í samræmi við þörf.


Helstu lestrarkennsluaðferðir

Hljóðaðferð er algengasta aðferðin hér á landi. Hún er grunnaðferð. Nemendur læra að þekkja heiti stafanna og hljóðgildi þeirra markvisst. Stuðst er við hljóðfræði til dæmis stafahúsið. Hljóðin eru tengd saman í orð og athyglin á orðmyndun við tenginguna. Samband skrifstafs og hljóðs er skýrt frá byrjun. Samhæfing hugar og handar æfist þegar skrifað er. Tenging hljóða og tenging skrifstafa þar af leiðandi í takt eða samferða þegar orð eru skrifuð og lesin. Ísak Jónsson hafði frumkvæði um að Kennaraskóli Íslands legði áherslu á hljóðaðferð í námi kennaranema. Árið1932 tók skólinn upp hljóðaðferð. Ísak Jónsson útfærði aðferðina og samdi fyrra og síðara hefti kennsluleiðbeininga fyrir kennaranema; drög að handriti: Um kennslu í byrjunarlestri.

Stöfunaraðferð er lítið sem ekkert notuð í skólum lengur. Með þessari aðferð eru heiti bókstafanna lærðir og kveðið að þeim. Þá er átt við að orð eru lærð með því að bókstafirnir eru nefndir hver á eftir öðrum. Lengri orð eru lesin í bútum og þeir tengdir saman.

LTG-aðferð, eða lestur á grunnvelli tals, kynntu sænskir kennarar fyrir um þremur áratugum. Aðferðin byggir á talmáli. Vinnuferlið er markvisst. Unnið er til dæmis út frá sögu sem nemandinn semur eða út frá mynd sem hann teiknar eða bókstaf sem hann velur. Nemandinn lærir ákveðið vinnulag og fer í gegnum stig eða áfanga. Hann lærir sjálfstæð vinnubrögð frá byrjun.

Söguaðferð er rakin til Skotlands. Atburðir settir á svið. Talmálið notað í skapandi starfi til dæmis út frá daglegu lífi: Hvernig undirbúum við ferðalag til útlanda? Á hverju þurfum við að halda? Hugtakasafn skráð jafnóðum, unnið er út frá þeim grunni og lestrarkennsla á sér stað samhliða. Undirbyggt og spunnið áfram í kennslustundum.

Orða- og setningaaðferð er sú aðferð sem Bretar og Bandaríkjamenn notuðu helst. Ritmál þeirra er óhljóðrétt. Sömu orð og setningar koma endurtekið fyrir í textanum. Að þekkja orðmyndina skiptir máli, heildarútlínuna. Steingrímur Arason notaði meðal annars þessa aðferð hér á landi. Árið1922 kynnir hann það sem best hefur reynst úr öllum aðferðum í bók sinni: Handbók í lestrarkennslu með lesbók fyrir byrjendur; Litla gula hænan. Áhersla lögð á hugsunina og skilninginn, talað um söguna. Samtalið afar mikilvægt og endurtekningar einnig. Ýmsir málörvandi leikir gagnlegir og samlestur. Orðspjöld, orðleit í texta og ýmsar æfingar til að auka skilning. Nemendur bera saman orð og setningar. Hljóðæfingar hvort tveggja munnlegar og skriflegar. Áhuginn er ávallt sá grundvöllur sem byggt er á.

Heildaraðferð gengur út á það að sagan er fyrst lesin og mikið stuðst við myndir sem eru skoðaðar um leið. Síðan er sagan bútuð niður í æ smærri einingar; setningar, orð, samstöfur og bókstafi/hljóð. Þessu fylgir fjölbreytt vinna. Orðum er raðað saman í setningar og bókstöfum í orð þar til textinn er fullunninn og nemandinn getur sjálfur lesið söguna.